Evrópski viðmiðaramminn um menntun og hæfi

Markmið ESB með Evrópska viðmiðarammanum um menntun og hæfi (e. European Qualifications Framework, EQF) var að búa til verkfæri sem auðveldaði fólki að átta sig á og bera saman menntun og hæfi mismunandi landa. EQF-rammanum er ætlað að styðja við hreyfanleika yfir landamæri meðal námsfólks og launafólks í Evrópu og efla nám alla ævi og þróun í starfi.

Hvað felst í EQF-rammanum?

EQF er átta þrepa viðmiðarammi um menntun og hæfi af öllu tagi. Hann byggist á hæfniviðmiðum og nýtist sem tæki til að túlka og auðvelda samanburð milli hæfniramma einstakra landa. Viðmiðaramminn stuðlar að auknu gegnsæi, gerir auðveldara að bera saman og yfirfæra menntun og hæfi fólks og gerir kleift að bera saman menntun og hæfi frá ólíkum löndum og stofnunum.

EQF nær yfir allar tegundir og öll stig menntunar og hæfis og með því að nota hæfniviðmið fæst skýr mynd af því hvað viðkomandi einstaklingur veit, skilur og er fær um. Hærra þrep svarar til aukinnar kunnáttu, 1. þrep er lægst og 8. hæsta kunnáttuþrepið. Síðast en ekki síst er EQF-ramminn nátengdur innlendum hæfnirömmum og veitir þannig heildstæða yfirsýn yfir allar tegundir og hæfisstig menntunar í Evrópu, sem er æ auðveldara að nálgast í gagnagrunnum yfir menntun og hæfi.>

EQF-rammanum var komið upp árið 2008 og hann var síðan endurskoðaður árið 2017. Endurskoðunin byggði á sömu meginmarkmiðum, þ.e. að skapa gegnsæi og gagnkvæmt traust á menntun og hæfi um alla Evrópu. Aðildarríkin einsettu sér að halda áfram að þróa EQF-rammann og auka gagnsemi hans sem hjálpartæki vinnuveitenda, launafólks og námsfólks við að átta sig á menntun og hæfi í einstökum ríkjum, á alþjóðlegum vettvangi og í þriðju löndum.

Hvaða ríki taka þátt?

Auk aðildarríkja ESB vinna ellefu önnur ríki að því að innleiða EQF-rammann, þ.e. Ísland, Liechtenstein og Noregur (EES-lönd), Albanía, Norður-Makedónía, Montenegró, Serbía og Tyrkland (umsóknarlönd), Bosnía og Hersegóvína, Kósovó ** (hugsanleg umsóknarlönd) og Sviss.

 

 

Hverjir eru aðrir hlutaðeigendur?

Ráðgjafarhópur EQF, sem komið var á árið 2008, er miðlægur samtalsvettvangur framkvæmdastjórnarinnar, ríkja og hagsmunaaðila á sviði menntunar og þjálfunar, úr atvinnulífinu og hinu borgaralega samfélagi. Hlutverk hans er að tryggja heildarsamræmi og efla gagnsæi og traust á viðmiðunarferlinu. Fundagerðir og fundaskjöl ráðgjafarhóps EQF eru birt í skrá yfir sérfræðingahópa framkvæmdastjórnarinnar

Evrópumiðstöð fyrir þróun starfsmenntunar (Cedefop) og starfsmenntunarstofnun Evrópu hafa sem Evrópustofnanir mikilvægu hlutverki að gegna í að styðja innleiðingu EQF-rammans. 

ENIC-NARIC-miðstöðvarnar eru net landsbundinna miðstöðva sem komið var á fót til að veita stofnunum og borgurum beina aðstoð í sambandi við viðurkenningu á menntun og hæfi á háskólastigi.

Man comparing EQF levels

EQF-ramminn þjónar ásamt öðrum evrópskum og alþjóðlegum verkfærum hlutverki í að viðurkenna menntun og hæfi.

Hvað er átt við með viðmiðunarferli?

Í tilmælunum um EQF eru aðildarríkin hvött til að miða innlenda ramma eða kerfi um menntun og hæfi við EQF til að tryggja skýr og gegnsæ tengsl milli innlendrar þrepaskiptingar og hæfniþrepanna átta í EQF. Mælst er til að aðildarríkin endurskoði og uppfæri, eftir því sem við á, viðmiðun hæfniþrepa í innlendum hæfnirömmum eða -kerfum til samræmis við þrepaskiptinguna í EQF.

Sérhvert land sem vill tengja hæfiskerfi sitt við EQF-rammann þarf að undirbúa ítarlega viðmiðunarskýrslu þar sem EQF-viðmiðunarskilyrðin 10 í Viðauka III við endurskoðuð tilmælin um EQF eru höfð að leiðarljósi. Innlendar viðmiðunarskýrslur eru lagðar fyrir EQF-ráðgjafarhópinn sem fellst á þær ef þær uppfylla viðmiðunarskilyrðin.

Þegar landsbundinn viðmiðarammi hefur verið tengdur EQF er reglan sú að allar nýjar staðfestingar á menntun og hæfi (s.s. skírteini, prófskírteini, mat og viðurkenning á starfsmenntun, viðauki með prófskírteini) og/eða gagnagrunnar um menntun og hæfi hafi að geyma skýrar vísanir bæði í viðkomandi EQF-þrep og hæfniþrep skv. innlendum ramma.