Meðhöndlun persónuupplýsinga í Europass
Það er forgangsmál hjá Europass að vernda persónuupplýsingar þínar. Europass kemur aldrei til með að deila, selja né nota persónuupplýsingar úr Europass prófílnum þínum. Það ert þú sem stjórnar því hver fær að sjá upplýsingarnar þínar og hve lengi.
Hvernig notar Europass gögnin þín?
Europass notar upplýsingarnar í prófílnum þínum til þess að greina færni þína og kunnáttu og gera þér tillögur um áhugaverð störf og námskeið. Þú getur slökkt á þessum Europass stillingum hvenær sem er.
Europass safnar nafnlausum, tölulegum gögnum (t.d. hve margir skráðu sig inn á Europass) og athugar leitni (t.d. hvort stafræn færni þeirra sem nota Europass sé mikil). Persónuupplýsingar þínar verða aldrei notaðar í þessari vinnslu.
Þú getur eytt hvenær sem er öllum eða hluta af Europass prófílnum þínum; þú hefur þannig ávallt fulla stjórn á gögnunum þínum.
Geymsla upplýsinga í Europass prófílnum þínum
Europass prófíllinn er persónulegt verkfæri þitt til að halda utan um allar upplýsingar um kunnáttu þína og reynslu. Þú getur haft persónulegar upplýsingar í prófílnum og geymt skrár (t.d. ferilskrár og prófskírteini) í Europass skjalasafninu þínu.
Þú ættir ekki að geyma upplýsingar í Europass sem gætu talist óviðeigandi eða særandi, né gögn sem innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar (t.d. um heilsu þína).
Deiling upplýsinga úr Europass prófílnum þínum
Europass mun aldrei deila prófílnum þínum eða skrám án þíns samþykkis. Þú getur deilt hlekkjum á Europass prófílinn þinn og skrár í Europass skjalasafninu þínu (t.d. ferilskrár og prófskírteini) með atvinnurekendum, menntastofnunum og öðrum aðilum að eigin vild.
Gakktu ávallt úr skugga um að þú vitir hver það er sem þú miðlar upplýsingum til.
Og vinsamlega gættu að því að það er hugsanlegt að sumir viðtakendur, sérstaklega utan EES, séu ekki bundnir reglum um gagnavernd.
Frekari upplýsingar
Europass er ókeypis verkfæri fyrir nám og störf í Evrópu, sem Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur látið þróa. Þér er velkomið að hafa samband við Europass varðandi spurningar um það hvernig þú meðhöndlar persónuupplýsingar þínar.
Hér má lesa opinbera stefnu Europass varðandi trúnað og meðferð persónuupplýsinga; þar er einnig að finna samskiptaupplýsingar Evrópsku persónuverndarstofnunarinnar (European Data Protection Supervisor, EDPS)