Búist til starfa erlendis
Ef þú áformar að starfa í öðru landi á EES-svæðinu þarftu að sýna atvinnurekendum eða ráðningaraðilum fram á kunnáttu þína á þann hátt sem þeir skilja. Hér er gátlisti með ráðum og upplýsingum sem hjálpar þér til að búast til starfa erlendis.
Athugaðu NQF-hæfisþrepið
Kynntu þér hvernig menntun þín og hæfi flokkast samkvæmt Viðmiðarammanum um menntun og hæfi (NQF) í þínu landi. Mörg lönd hafa komið sér upp viðmiðaramma um menntakerfi sitt svo að auðveldara sé að átta sig á því hvaða hæfi tiltekin menntun skilar.
Þú getur líka athugað hvernig menntun þín flokkast samkvæmt Evrópska viðmiðarammanum um menntun og hæfi (EQF). EQF-ramminn auðveldar samanburð á menntun og hæfi í hinum ólíku löndum í Evrópu. Flest Evrópulönd hafa samræmt innlendan flokkunarramma sinn EQF-rammanum. Þú getur bætt upplýsingum um hæfisflokkun þína samkvæmt NQF og EQF í ferilskrána og umsóknargögn. Menntastofnunin þar sem þú stundaðir nám gæti veitt þér upplýsingar í sambandi við menntun þína og hæfi.
Athugaðu hvort starfsgrein þín eða starf sé lögverndað
Í mörgum löndum eru ákveðnar starfsgreinar lögverndaðar (s.s. læknar, lögmenn og arkitektar).
Þetta þýðir að til að sinna þessum störfum í viðkomandi landi þarf að uppfylla sérstök skilyrði. Athugaðu gagnagrunn um lögverndaðar starfsgreinar til að sjá hvort þín starfsgrein sé þar á meðal.
Þú þarft að uppfylla sérstök skilyrði ef þú vilt sækja um slík störf og getur þurft að taka próf. Ef þín starfsgrein er lögvernduð og þú þarft að sækja um viðurkenningu á faglegri menntun þinni og hæfi geturðu:
- Sótt um viðurkenningu með evrópska fagskírteinið (EPC) að vopni
- Haft samband við innlenda tengiliði fyrir faglega menntun og hæfi í landinu þar sem þig langar til að starfa, til að fá frekari upplýsingar.
Útvegaðu þér viðurkenningu á menntun þinni og hæfi
Hafðu samband við ENIC-NARIC-miðstöðina í landinu þar sem þig langar til að starfa. ENIC-NARIC-miðstöðvarnar veita mat og ráðgjöf varðandi viðurkenningu á erlendri menntun, sem getur komið þér að gagni við að útskýra menntun þína fyrir atvinnurekendum og ráðningaraðilum.
Komdu góðu skipulagi á skjölin þín
Sjáðu til þess að þú eigir auðvelt með að nálgast prófskírteinin þín, umritanir og önnur skjöl sem þú deilir með atvinnurekendum eða þjónustustofnunum í landinu þar sem þig langar til að starfa. Einnig getur verið að þú þurfir að útvega þér þýðingar á skjölum.
Þú getur geymt öll stafræn skjöl í Europass skjalasafninu þínu.
- Ef þú ert með háskólamenntun geturðu beðið um Viðauka með prófskírteini hjá stofnuninni þar sem þú stundaðir nám, en í honum eru gagnlegar upplýsingar um menntun þína sem auðvelda þér að útskýra hvað þú kannt.
- Ef þú hefur hlotið starfsmenntun geturðu útvegað þér Mat og viðurkenningu á starfsmenntun, sem veitir gagnlegar upplýsingar um starfsmenntun þína og útskýrir í hverju hún fólst.