Europass fyrir ráðningar og störf
Þjónustan sem Europass veitir kemur að góðum notum fyrir mannauðssérfræðinga, ráðningaraðila og náms- og starfsráðgjafa sem þurfa aðgang að áreiðanlegum verkfærum og upplýsingum til að átta sig á kunnáttu og hæfi starfsumsækjenda.
Ráðningarferlið einfaldað
Europass má nota sem ráðningarverkfæri með því að þú biður starfsumsækjendur um að búa til Europass-prófíl. Notendur Europass geta búið til prófíl sem hefur að geyma yfirlit yfir alla kunnáttu þeirra, menntun, hæfi og reynslu. Þeir geta sent vinnuveitendum hlekk á prófílinn að eigin vild. Prófíllinn veitir þér, vinnuveitanda eða ráðningaraðila, færi á að kynna þér færni og reynslu umsækjenda í skipulegri og auðskiljanlegri framsetningu. Europass gerir umsækjendum einnig kleift að búa til ferilskrár og fylgibréf sem þeir geta síðan deilt ásamt öðrum skjölum með einum hlekk á Europass.
Ennfremur, ef þú auglýsir laus störf á vefgátt vinnumiðlunarnets Evrópu (EURES) beinir Europass athygli atvinnuleitenda að lausum störfum sem hæfa þeirra færniprófíl.
Símenntun starfsfólks
Europass má einnig nota til að efla færni meðal starfsfólks þíns. Með Europass má fá skýra mynd af kunnáttu og færni starfsmanna fyrirtækisins og það getur veitt þér góða innsýn inn í þarfir þess á sviði endurmenntunar og þjálfunar. Starfsmenn geta aukið við og uppfært Europass-prófíl sinn og með því haft stöðuga yfirsýn yfir þróun sína á faglega sviðinu og árangur og framför í starfi. Með því að nota Europass í fyrirtæki þínu geturðu virkjað áður óþekkta möguleika vinnuaflsins með ókeypis og áreiðanlegum ESB-verkfærum.
Að skilja færni, menntun og hæfi
Europass hefur einnig í boði önnur verkfæri sem geta hjálpað þér við að átta þig á hvað liggur að baki tiltekinni kunnáttu og menntun, þ.m.t. þegar um er að ræða menntun sem aflað var í öðrum löndum:
- Viðauki með háskólaskírteini er gefinn út af æðri menntastofnunum og lýsir menntun og hæfi á háskólastigi (s.s. prófgráðum, árangri, stofnun) á stöðluðu sniði.
- Mat og viðauki með starfsmenntaskírteini er gefið út af starfsmenntastofnunum og lýsir starfsmenntun (s.s. prófgráðum, árangri, stofnun) á stöðluðu sniði.
- Europass-starfsmenntavegabréfið veitir lýsingu á reynslu og færni sem nemendur öðlast við nám, störf eða sjálfboðavinnu erlendis.
Europass-rafskilríki
Umgjörð Europass um stafræn skilríki gerir menntastofnunum kleift að gefa út stafræn, ófalsanleg prófskírteini og önnur námsskilríki. Með Europass-rafskilríkjum er komin einföld og örugg leið fyrir námsfólk, atvinnurekendur, menntastofnanir og aðra viðurkennda aðila til að ganga úr skugga um áreiðanleika stafrænna skilríkja. Í þeim felst möguleiki á að sannreyna áreiðanleika prófskírteina umsækjenda og starfsfólks. Europass-rafskilríki eru lagalega jafngild pappírsskírteinum alls staðar í Evrópusambandinu og allar einingar stoðkerfisins eru opnar og ókeypis. Lesa meira um Europass-rafskilríki.
Hjálpaðu okkur að efla Europass!
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stefnir að því að gera Europass að þjónustu sem nýtur álits og útbreiðslu meðal atvinnurekenda, ráðningaraðila og símenntunarstofnana.
Hafa samband um tölvupóst ef þú vilt bregðast við eða hefur spurningar um Europass.