Viðurkenning á færni og menntun og hæfi

Viðurkenning á færni og menntun og hæfi er lykilatriði þegar kemur að því að styðja hreyfanleika og tækifæri allra til náms og starfa hvar sem er á EES-svæðinu.

Viðurkenning á færni og menntun og hæfi er lykilatriði þegar kemur að því að styðja hreyfanleika og tækifæri allra til náms og starfa hvar sem er á EES-svæðinu.

Verklagsferli fyrir viðurkenningu á menntun og hæfi eru tvenns konar:

  • Viðurkenning fyrir framhaldsmenntun og þjálfun
  • Viðurkenning til að öðlast aðgengi að atvinnu, þ.m.t. lögvernduðum starfsgreinum

 

Viðurkenning á menntun og hæfi fyrir framhaldsmenntun og þjálfun

Stefnan að baki

Í tilmælum ráðsins frá 26. nóvember 2018 er ýtt undir sjálfkrafa, gagnkvæma viðurkenningu á:

  • menntun og hæfi á háskólastigi og framhaldsskólastigi
  • árangri af námstímabilum erlendis

Í tilmælunum er skorað á aðildarríkin að koma sér upp ramma, ekki síðar en 2025, til að ná fram sjálfkrafa, gagnkvæmri viðurkenningu á menntun og hæfi á háskólastigi alls staðar í aðildarríkjunum.

Í tilmælunum er ennfremur kallað eftir sjálfkrafa og fullri viðurkenningu á námstímabilum erlendis og sjálfkrafa viðurkenningu á menntun og hæfi á framhaldsskólastigi sem veitir aðgang að æðri menntun.

Samningur um viðurkenningu á menntun og hæfi á æðra skólastigi á Evrópusvæðinu (einnig kallaður Lissabon-samningurinn um viðurkenningu), á vegum Evrópuráðsins og UNESCO, var samþykktur í Lissabon árið 1997. Hann er aðallagagerningurinn til grundvallar viðurkenningu á menntun og hæfi á UNESCO-svæðinu Evrópu og Norður-Ameríku. Hann veitir handhafa menntunar og hæfis frá undirritunarríki aðgang að mati á menntun sinni og hæfi í öðru undirritunarríki. Slíkt mat og síðari viðurkenning getur þjónað þeim tilgangi að:

  • fá aðgang að framhaldsnámi á háskólastigi
  • fá að nota lærdómstitil
  • auðvelda aðgang að vinnumarkaði

Undirritunarríki samningsins einsettu sér einnig að koma á fót innlendum verklagsreglum til að meta menntun og hæfi flóttamanna og uppflosnaðra, jafnvel þegar engin formleg gögn eru fyrir hendi. 

Woman holding a globe

Upplýsingar um viðurkenningu á menntun og hæfi

ENIC-NARIC netið þróar sameiginlega stefnu og starfsvenjur í öllum Evrópulöndum að því er varðar viðurkenningu á menntun og hæfi. Netið samanstendur af Evrópuneti upplýsingastöðva (European Network of Information Centres, ENIC), settu á stofn af Evrópuráðinu og UNESCO, og landsbundnum upplýsingamiðstöðvum fyrir viðurkenningu á háskólanámi (National Academic Recognition Information Centres, NARIC), sem komið var á laggirnar af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Þú getur haft samband við landskrifstofur ENIC/NARIC um ENIC-NARIC vefgáttina til að afla frekari upplýsinga um viðurkenningu á menntun og hæfi fyrir framhaldsmenntun og -þjálfun. 

Viðurkenning á faglegri menntun og hæfi

Stefnan að baki

Viðurkenning á faglegri menntun og hæfi á EES-svæðinu lýtur ákvæðum tilskipunar 2005/36/EB

Tilskipunin kveður á um:

  • kerfi til sjálfkrafa viðurkenningar fyrir hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, lækna (heimilislækna og sérfræðilækna), tannlækna, lyfjafræðinga, arkitekta og dýralækna
  • almennt kerfi til viðurkenningar á öðrum lögvernduðum starfsgreinum, s.s. kennurum, þýðendum og fasteignasölum
  • kerfi til viðurkenningar út frá starfsreynslu, t.d. fyrir trésmiði, bólstrara og snyrtifræðinga.

Sjá meira um viðurkenningu á lögvernduðum starfsgreinum hér eða skoðið gagnagrunn um lögverndaðar starfsgreinar.

Sérstakir reglurammar

Tilskipun 2005/36/EB tekur ekki til starfsgreina sem um gilda sérstök lagaákvæði, s.s. sjómenn, löggilta endurskoðendur, tryggingamiðlara og flugumferðarstjóra, lögmenn, umboðsaðila og ýmsar starfsgreinar í flutningum eða þá sem meðhöndla eiturefni. Sjá nánari upplýsingar um starfsgreinar sem falla undir sérstaka löggjöf.

Evrópska fagskírteinið (European Professional Card, EPC) felur í sér netlægt ferli til viðurkenningar á menntun og hæfi í fimm starfsgreinum (almennir hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, lyfjafræðingar, fasteignasalar og fjallaleiðsögumenn).